Ruhollah Khomeini
Ruhollah Mostafavi Moosavi Khomeini (persneska روحالله خمینی; 24. september 1902 – 3. júní 1989) var íranskur trúarleiðtogi og leiðtogi írönsku byltingarinnar 1979 þar sem Íranskeisara, Múhameð Resa Pahlavi, var steypt af stóli. Eftir byltinguna varð Khomeini æðsti leiðtogi Írans þar til hann lést. Khomeini var líka þekktur sem æðstiklerkur Írans. Stuðningsmenn hans kalla hann ímam Khomeini, en aðrir titla hann oft ayatollah sem vísar til háttsettra sjíaklerka í tólfungaútgáfu sjía íslam.
Ruhollah Khomeini | |
---|---|
روحالله خمینی | |
![]() Khomeini árið 1981. | |
Æðsti leiðtogi Írans | |
Í embætti 3. desember 1979 – 3. júní 1989 | |
Forseti | |
Forsætisráðherra | |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Ali Khamenei |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 24. september 1902 Khomeyn, Íran |
Látinn | 3. júní 1989 (86 ára) Teheran, Íran |
Þjóðerni | Íranskur |
Maki | Khadijeh Saqafi (g. 1929) |
Börn | 7 |
Háskóli | Qom-klerkaskólinn |
Undirskrift | ![]() |
Khomeini varð æðstiklerkur (marja'') eftir lát Seyyed Husayn Borujerdi árið 1963. Klerkastéttin hafði þá lengi verið í vörn gagnvart veraldlegri stjórn Rezā Shāh. Khomeini hafnaði „hvítu byltingu“ keisarans, röð umbóta að vestrænni fyrirmynd. Vegna mótmælanna var Khomeini handtekinn um stutt skeið og síðan rekinn í útlegð. Lengst af bjó hann í Nadjaf í Írak. Hann kynti undir vaxandi andstöðu við stjórn keisarans. Eftir lát umbótasinnans Ali Shariati 1977 varð Khomeini óskoraður leiðtogi andspyrnunnar. Eftir flótta keisarans til Egyptalands í janúar 1979 sneri Khomeini aftur til Írans sem andlegur leiðtogi byltingarinnar. Hann barðist gegn bráðabirgðastjórn Shapour Bakhtiar og tók öll völd í febrúar. Í lok mars lýsti hann yfir stofnun íslamsks lýðveldis í Íran. Ný stjórnarskrá gerði hann að æðsta leiðtoga og stofnaði tólf manna klerkaráð með neitunarvald þar sem lög stangast á við íslam.
Æviágrip
breytaRuhollah Khomeini fæddist árið 1902 í bænum Khomeyn, litlu þorpi um 350 km sunnan við Teheran. Hann hlaut hefðbundna skólagöngu en nam síðan íslömsk fræði við hinn virta guðfræðiskóla í Qom. Að loknu námi varð hann kennari við skólann.[1]
Khomeini hafði lítil afskipti af stjórnmálum fyrr en árið 1962, þegar Múhameð Resa Pahlavi, keisari Írans, hóf hina svokölluðu hvítu byltingu. Khomeini taldi hvítu byltinguna hafa slæm áhrif á íranskan landbúnað og hóf því að gagnrýna keisarann í predikunum sínum. Khomeini gagnrýndi keisarann jafnframt fyrir náin tengsl hans við Bandaríkin og Ísrael og sakaði hann um að vilja tortíma íslam í Íran með hjálp Gyðinga.[2]
Árið 1963 var Khomeini handtekinn fyrir stjórnmálaskoðanir sínar og dæmdur til dauða fyrir föðurlandssvik. Íranskir klerkar, þar á meðal ajatollann Mohammad Kazem Shariatmadari, komu Khomeini hins vegar til aðstoðar og fengu því ágegnt að keisarinn lét sleppa honum úr fangelsi. Khomeini hélt hins vegar áfram að gagnrýna keisarann eftir lausn sína úr fangavistinni, sér í lagi eftir að keisarinn innleiddi árið 1964 ný lög sem veittu Bandaríkjamönnum ný diplómatísk réttindi í Íran í skiptum fyrir að heimila vopnasölu til landsins. Þann 27. október 1964 flutti Khomeini fræga ræðu þar sem hann sagði þessi lög staðfesta að Íran væri orðin nýlenda Bandaríkjanna.[2]
Í kjölfar ræðunnar var Khomeini gerður útlægur frá Íran. Hann hélt fyrst til Tyrklands en settist síðan að í Najaf í Írak. Þar hélt Khomeini áfram virkri andstöðu gegn keisaranum. Hann predikaði, skrifaði greinar og gaf reglulega út yfirlýsingar gegn keisarastjórninni og segulbandssnældum af ræðum hans var oft smyglað til Írans þrátt fyrir tilraunir leynilögreglu keisarans, SAVAK, til að uppræta þær. Þrátt fyrir að Khomeini væri tiltölulega lítið þekktur utan Írans fjölgaði fylgismönnum hans jafnt og þétt og fyrirlestrar hans voru vel sóttir.[3]
Árið 1970 breytti Khomeini um stefnu og fór, fremur en að gagnrýna aðeins persónu Múhameðs Resa Pahlavi keisara, að gagnrýna keisaraembættið sem slíkt. Hann fór opinberlega að kalla eftir því að Íran yrði stýrt af íslömsku ríkisvaldi sem ætti að koma í stað keisarans eftir allsherjarbyltingu. Árið 1971 gaf Khomeini út ritið Umboð löggjafans (Velayat-e Faqih), þar sem hann lýsti því yfir að konungsveldi líkt og Pahlavi-ríkið væru í andstöðu við vilja Guðs þar sem löggjafarvald og fullveldi lægju hjá Guði. Í stað löggjafarþings ætti því að setja á fót stofnun þar sem löglærðir klerkar túlkuðu og framfylgdu lögum Guðs.[4] Þessar hugmyndir Khomeini voru í ósamræmi við trúarlega hefð sjía, þar sem umboð klerka hafði ávallt verið skilgreint á tiltekinn máta og náði ekki til pólitískra og veraldlegra mála.[5]
Khomeini og íranska byltingin
breytaÍ aðdraganda írönsku byltingarinnar 1978 voru margir Íranir farnir að líta á Khomeini sem raunverulegt andsvar við keisaranum, án þess endilega að kunna góð skil á hugmyndafræði hans eða framtíðarsýn. Þar sem ný öld hófst samkvæmt íslamska tímatalinu í desember 1979 biðu sumir múslimar þess að nýr leiðtogi (mahdi) myndi birtast til að marka upphaf aldarinnar. Sumir sjíamúslimar trúðu því jafnvel að Khomeini væri hinn horfni imam og fóru því að titla Khomeini imam, sem hann staðfesti aldrei en neitaði ekki heldur.[6]
Gríðarleg eftirvænting ríkti því þegar Khomeini lenti á flugvellinum í Teheran þann 1. febrúar 1979, eftir að keisarinn hafði flúið land vegna byltingarinnar. Þegar Khomeini kom aftur til Írans voru ríkisvaldið, herinn og efnahagurinn í lamasessi vegna byltingarinnar og margir stjórnmálaflokkar börðust enn sín á milli um forystu innan nýja stjórnskipulagsins.[7] Flestir stjórnmálaleiðtogar bjuggust við því að Khomeini myndi setjast að í Qom og gerast eins konar andlegur leiðtogi þjóðarinnar eftir byltinguna fremur en að gegna pólitísku hlutverki, en Khomeini hafði annað í huga.[8]
Eftir að Khomeini komst til valda lét hann reka forsætisráðherrann Shapour Bakhtiar og skipaði hans í stað Mehdi Bazargan. Hann stofnaði jafnframt æðstaráð kennimanna sem gat beitt neitunarvaldi gegn stjórn Bazargans. Í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 1979 samþykktu Íranir að breyta landinu úr keisaradæmi í lýðveldi. Khomeini beitti sér fyrir því að ný stjórnarskrá landsins yrði alfarið byggð á kenningum íslams. Ný stjórnarskrá Íslamska lýðveldisins Írans byggði að miklu leyti á hugmyndum Khomeini og gerði meðal annars ráð fyrir að allar ákvarðanir íranska þingsins yrðu að fá samþykki tólf manna æðstaráðs sem yrði skipað löglærðum klerkum. Stjórnarskráin stofnaði jafnframt embætti æðsta leiðtoga Írans, sem fékk það hlutverk að stýra æðstaráðinu og vera leiðtogi þjóðarinnar í umboði og fjarveru hins horfna imams.[8] Khomeini var í kjölfarið skipaður í embættið til lífstíðar.[9]
Gíslatakan í Teheran
breytaEftir að Khomeini tók völdin í Íran var starfsmönnum bandaríska sendiráðsins fækkað úr nærri eitt þúsund í aðeins sextíu. Sendiráðið lá þá undir stöðugu grjótkasti og Khomenei ól á hatri á Bandaríkjunum, sem hann kallaði „hinn mikla satan“ sem sæti að svikráðum við Írani. Þann 22. október 1979 fékk hinn brottræki fyrrum keisari Pahlavi að fara til Bandaríkjanna til að leita sér lækninga vegna krabbameins. Jimmy Carter Bandaríkjaforseti og stjórn hans neituðu að framselja keisarann til Írans, sem jók enn á reiði íransks almennings gagnvart Bandaríkjunum. Í nóvember 1979 réðust íranskir stúdentar inn í bandaríska sendiráðið og tóku starfsmenn þess og fjölskyldur þeirra í gíslingu. Sumir þeirra hugsuðu sér að hægt yrði að fá keisarann framseldan í skiptum fyrir gíslana eða koma í veg fyrir að gagnbylting yrði gerð í landinu með stuðningi Bandaríkjanna.[10]
Í fyrstu var Khomeini andsnúinn gíslatökunni en hann skipti fljótt um skoðun og fór að hrósa gíslatökuhópnum. Gíslatakan og deilan við Bandaríkin sameinuðu írönsku þjóðina og juku byltingarandann í landinu. Í apríl 1980 skipaði Jimmy Carter hernaðaraðgerðina „Arnarkló“ til að bjarga gíslunum en hún misheppnaðist hrapalega þegar bandarískar þyrlur lentu í sandstormum og biluðu á dularfullan hátt. Einn Írani lést í aðgerðinni en átta Bandaríkjamenn. Khomeini þakkaði guðlegri forsjón fyrir hrakfarir Badnaríkjamanna og vinsældir hans jukust gífurlega á kostnað hófsamari afla innan Írans. Í samningaviðræðum um gíslanna á næstu mánuðum samþykkti Carter ítrekað niðurlægjandi skilmála um lausn gíslanna en Khomeini hafnaði öllum samningunum á síðustu stundu. Gíslunum var að endingu ekki sleppt fyrr en stuttu eftir að Ronald Reagan hafði tekið við af Carter sem forseti Bandaríkjanna eftir forsetakosningarnar 1980. Gíslatökumálið styrkti mjög stöðu Khomeini og hjálpaði stuðningsmönnum hans að brjóta andstöðu í Íran á bak aftur.[10]
Stríðið við Írak
breytaEftir valdatöku Khomeini í Íran fór hann að skipta sér að innanríkismálum í nágrannaríkinu Írak og hvatti til þess að íslömsk bylting yrði gerð í landinu. Landamæraátök brutust af og til út milli ríkjanna tveggja á næstu mánuðum.[11]
Þann 17. september 1980 sögðu Írakar sig frá Alsír-sáttmálanum, sem hafði verið gerður milli Írans og Íraks árið 1975 til að leysa úr landamæradeilum ríkjanna. Saddam Hussein, forseti Íraks, vísaði til þess að Íran neitaði að hlíta ákvæðum sáttmálans og sagði hann ógildan vegna landamæraátakanna og afskipta Írana af innanríkismálum Íraka.[11] Þann 22. september 1980 hófst stríð Íraks og Írans þegar Írakar, undir stjórn Saddams Hussein, gerðu innrás í Íran. Með innrásinni gerði Saddam tilkall til Shatt al-Arab-siglingaleiðarinnar og Khuzestans.[12] Saddam taldi að Íran væri í óreiðu vegna byltingarinnar og því lægi landið vel við höggi, þrátt fyrir að Íran væri mun stærra og fjölmennara en Írak.[13] Írökum varð nokkuð ágengt á fyrstu vikum stríðsins en eftir það komu Íranir sér upp öflugri mótspyrnu og stríðið varð að langvinnu þreytistríði. Þvert á það sem Saddam hafði ætlað sér þjappaði stríðið Írönum saman og styrkti völd Khomeini og róttækari arms byltingaraflanna. Á þessum tíma urðu pasadaran- og basiji-deildir hins nýja Íranska byltingarvarðar meðal öflugustu hersveita Írana.[14]
Í áróðri stjórnarinnar lagði Khomeini áherslu á stríðið sem baráttu á milli góðs og ills og á milli íslams og trúleysingjans Saddams Hussein. Með því að stilla stríðinu upp sem stríði í þágu íslams vann Khomeini sér stuðning alþýðunnar og fékk Írani til að berjast af trúarofsa. Margir hermenn létust í sjálfsmorðsárásum gegn Írökum til þess að ávinna sér píslarvættisdauða.[15]
Stríð Írans og Íraks dróst á langinn og hafði mjög slæm áhrif á atvinnuvegi Írans, sér í lagi á tekjur ríkisins af olíuframleiðslu þeirra. Þann 2. júní 1988 setti Khomeini þingforsetann Akbar Hashemi Rafsanjani yfir allan herafla íslamska lýðveldisins. Rafsanjani hóf fljótt umleitanir til að binda enda á stríðið til þess að bjarga efnahagi Írans.[16] Khomeini féllst loksins á tillögu um vopnahlé þann 20. júlí 1988. Hann lýsti því yfir að sú ákvörðun hefði verið „banvænni en eitur“ en væri þó nauðsynleg til að bjarga byltingunni.[17]
Dauðadómurinn gegn Salman Rushdie
breytaÁrið 1989 gaf Khomeini út fatwa þar sem hann dæmdi rithöfundinn Salman Rushdie til dauða fyrir guðlast. Khomeini vísaði til þess að bók Rushdie, Söngvar Satans, fæli í sér siðlausa og móðgandi umfjöllun um Múhameð spámann og eiginkonur hans, auk þess sem hann taldi að bókin rangtúlkaði og afbaka��i boðskap kóransins. Harðar deilur sköpuðust meðal múslima um lögmæti og réttmæti dauðadómsins þar sem sjaríalög gera aðeins ráð fyrir að gefa megi út fatwa að ströngum skilyrðum uppfylltum. Andstæðingar dauðadómsins bentu á að sönnunarbyrðin væri afar mikil vegna guðlasts og hinn ákærði þyrfti að játa brot sitt fyrir rétti þrisvar sinnum, sem Rushdie gerði aldrei.[18]
Khomeini sagði tilgang dauðadómsins vera að verja heiður íslamstrúar og treysta bönd múslima um allan heim. Hins vegar hafa sumir fræðimenn dregir opinberar ástæður dauðadómsins í efa og haldið því fram að um hafi verið að ræða pólitíska refskák. Ætlun Khomeini hafi öðru fremur verið að bæja athygli Írana frá slæmu ástandi í landinu vegna stríðs Írans og Íraks. Hafi hann viljað endurvekja anda íslömsku byltingarinnar með því að ganga fram sem verndari íslam á svo afgerandi hátt.[18]
Heimildir
breyta- Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. ISBN 978-9979-3-3683-9.
Tilvísanir
breyta- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 263.
- ↑ 2,0 2,1 Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 264.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 265.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 266.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 267.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 269.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 270.
- ↑ 8,0 8,1 Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 271.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 272.
- ↑ 10,0 10,1 Pálmi Jónasson (4. nóvember 2019). „40 ár frá gíslatökunni í Teheran“. RÚV. Sótt 22. apríl 2021.
- ↑ 11,0 11,1 Ingimar Jenni Ingimarsson (17. janúar 2022). „Af hverju hófst Persaflóastríðið fyrra?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. janúar 2025.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 282.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 283.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 284.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 285.
- ↑ Magnús Torfi Ólafsson (23. júlí 1988). „Erkiklerkur fær að geifla á eitrinu“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 288.
- ↑ 18,0 18,1 Guðrún Margrét Guðmundsdóttir (8. nóvember 2006). „Af hverju var rithöfundurinn Salman Rushdie dæmdur til dauða?“. Vísindavefurinn. Sótt 21. apríl 2024.
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Ali Khamenei |